Markmið Knapamerkjanna

  • Að stuðla að auknum áhuga á reiðmennsku á íslenskum hestum og hestaíþróttum.
  • Að auðvelda aðgengi að skipulagðri og markvissri menntun í reiðmennsku og hestaíþróttum fyrir unga sem aldna.
  • Að bæta þekkingu á meðferð, notkun og umhirðu íslenska hestsins á breiðum grunni.
Hestamennska er ein vinsælasta íþróttagreinin hér á landi og er í senn keppnisíþrótt og almenningsíþrótt. Mikill fjöldi stundar hestamennsku sér til ánægju og lífsfyllingar. Samneyti við hestinn, líkamleg þjálfun og tengsl við náttúruna er það sem allir hestamenn sækjast eftir. Viðgangur og vöxtur hestamennskunnar, ekki síður en annarra íþróttagreina, byggist að miklu leyti á því að miðlun þekkingar og færni sé markviss. Því er mikilvægt að kennsla í greininni sé vel skipulögð og aðgengi að henni auðvelt.

Með stigskiptu námi í hestamennsku sem hér er kynnt er stuðlað að bættu aðgengi að fræðslu, þjálfun og menntun í hestamennsku. Markmiðið er að kennslan verði faglegri og samræmdari en verið hefur og nemandinn leiddur stig af stigi í takt við getu hans og áhuga. Þar með er lagður grunnur að árangri og öryggi í hestamennskunni hvort sem hún verður stunduð til frístunda eða sem keppnisíþrótt í framtíðinni. Með því að nám barna og ungmenna í hestamennsku er valkostur í skólakerfinu skapast sterkari umgjörð sem stuðlar að markvissum vinnubrögðum við kennslu, námsmat, gerð námgagna og um leið frekari útbreiðslu hestamennskunnar. Þá mun tilkoma Knapamerkjanna einnig stuðla að því að hinn almenni hestamaður geti með skipulögðum hætti aukið við þekkingu sína með því að sækja námskeið sem eru byggð upp stig af stigi hvað varðar námsþætti, færni og námsmat.